Sagnabrunnur

Sagan í nýju samhengi

Einar Benediktsson

Sigurður Nordal

Erindi þetta var flutt í Ríkisútvarpið 31. október 1939. Þó að það sé ekki nema afmælisræða, sem nær skammt til þess að gera skáldinu og verkum hans viðunandi skil, hefi ég fyrir tilmæli ritstjóra Skírnis látið til leiðast að birta það nú. Einar Benediktsson andaðist 12. janúar 1940, og hefði því verið eðlilegast að vinna úr þessum drögum eftirmæli um hann, en til þess brast mig tíma að þessu sinni. Vonandi get ég síðar ritað rækilegar um sumt af því, sem hér er lauslega vikið að. Erindið er að mestu leyti óbreytt frá því, sem það var. Ég hefi sleppt fáeinum setningum, sem sérstaklega voru bundnar við afmælisdaginn, og aukið IV. kaflann nokkuð, þó að efni hans sé hið sama og áður. — Allir þeir, sem þekkja kvæði Einars, munu sjá, að ég hefi víða vitnað í þau í lausa málinu, án þess ég hafi nennt að setja það innan tilvísunarmerkja á hverjum stað né geta þess, hvaðan það sé tekið.

I.

Þegar Björnstjerne Björnson var sjötugur, orti Þorsteinn Erlingsson til hans kvæði, sem byrjar á þessa leið:

Þín hirð þekkist, Norðmaður, hvar sem hún fer,
þar herja svo margir og snjallir;
þeir ganga nú færri með gildari her,
og gullhjálminn þekkjum vér allir.

Einar Benediktsson hefir ekki safnað um sig neinum her fylgismanna. Hann hefir verið einmana maður, eins og flestir miklir andans menn, jafnvel þegar hann svipsinnis hefir varpað sér inn í stjórnmálaskærur eða lifað miklu samkvæmislífi. En samt hefir hann haft um sig hirð, — flokk, sem hann var sífellt að efla í 40 ár, frá því hann birti fyrstu kvæði sín, í Sunnanfara 1891, þangað til hann gaf út síðustu ljóðabók sína, Hvamma, 1930. Og hver þekkir ekki þá hirð, hvar sem hún fer? Hver þekkir ekki undir eins mót Einars Benediktssonar á hverju kvæði hans, hverju erindi, oft á einni ljóðlínu,

— þennan tiginborna svip, lotninguna fyrir tungunni, listinni, tilverunni? Hann byrjaði skáldferil sinn hálfþrítugur með kvæðum, sem voru fullþroska að stíl, hrynjandi og listarbrag. Þegar við lesum ljóðmæli hans, finnst okkur þau vera tómt einvalalið. Þessi hirð er eins og Hálfsrekkar, sem Grímur lýsir:

Innsta halnum Hrólfs í garði
Hálfs var ysti rekkur jafn.

Einar hefir varla ort svo stöku né tækifæriskvæði, að hann setji þeim ekki mark hins mikla skáldskapar. Verk hans bera ekki einungis vott um stórfelldar gáfur. Að vísu eru slíkar gáfur fágætar. Hitt er samt enn fágætara, að menn beini hæfileikum sínum að nógu bröttum leiðum, þori að færast sannarleg stórvirki í fang, séu svo vandlátir, að ekkert sé þeim fullkosta nema hið fullkomna. En svo djarfur og göfuglátur í senn var Einar í list sinni. Það var konungsmerki hans, — gullhjálmurinn, sem skáldmenn íslands í framtíðinni geta ekki misst sjónar á.

II.

Þess er enginn kostur að gera neina heildarlýsingu skáldsins og verka hans í svo stuttu máli. Mig langar ekki heldur til þess að halda hér lofræðu, sem sé svo almenns efnis, að hún komi hvergi nærri neinu því, sem enn má telja almenningi meira og minna óljóst og torráðið um manninn og ljóðin. Því vil ég fremur takmarka umræðuefnið, tengja þessi fáu orð við eitt kvæði. Það er hóti viðráðanlegra, og þá er meiri von um, að áheyrendur standi ekki alveg tómhentir eftir. Ég vel mér að umtalsefni kvæðið Dettifoss. Þess er rétt að geta, að ég tel það hvorki meðal allra mestu kvæða skáldsins né þeirra vandskýrðustu. En það geymir samt út af fyrir sig mikilvæg drög til lýsingar Einars Benediktssonar. Um það hefir verið allmikið rætt, og það hefir verið bæði vanskilið og misskilið. [07-1] Auk þess gefur það mér færi til þess að segja nokkur orð af hreinskilni um þann þátt í ævisögu Einars, sem menn leiða venjulega að mestu eða öllu hjá sér, þegar þeir rita um skáldið, en alþýðu manna hefir orðið því skrafdrýgra um.

Sá boðskapur, sem var veitt mest athygli, þegar þetta kvæði birtist fyrst, fyrir 34 árum, [07-02]var draumur Einars um framtíðarhlutverk Dettifoss og annarra íslenskra fossa: að það ætti að nota þetta feiknaafl, sem hingað til hefði farið til ónýtis, verið kviksett í klettalegstað fljótsins, til þess að bæta kjör lýðs og lands, tendra ljós í myrkri, breyta ísi jöklanna í hita, græða upp landið, strá blómaskrauti yfir rústir grjótsins og draga frjómögn lofts að blómi og björk.

Það er enginn vafi á því, að Einar hefir þarna ofarlega í huga framleiðslu tilbúins áburðar í stórum stíl, þó að hann klæði þá hugmynd í svo skáldlegan búning, að þetta hversdagslega orð kemst ekki að. Einmitt á því ári, sem Einar orti' kvæðið, var hinn mikli norski fræðingur Birkeland vel á veg kominn með þær rannsóknir, sem urðu undirstaða að saltpétursvinnslu úr loftinu við fossa í Noregi. Einar hlýtur að hafa lesið eitthvað um þetta, líklega í norskum blöðum, því að fyrsta vísindalega ritgerð Birkelands um það efni birtist ekki fyrr en 1906, ári síðar en kvæðið, og fyrsta verksmiðja af þessu tagi var ekki reist fyrr en 1908. En svo næmur hefir Einar verið á gildi þessarar nýju uppfinningar, að allt ímyndunarafl hans kemst á flug: hann sér hina beinaberu ættjörð sína í anda klædda í gróðrarskrúð og þjóðina eiga sér nýja framtíð auðlegðar og gæfu.

Einari Benediktssyni var þetta meira en skáldleg draumsýn. Hann lét ekki sitja við ljóðin tóm. Um margra ára skeið reyndi hann að koma hugmynd sinni um stórfellda virkjun íslenskra fossa í framkvæmd og var kominn vel á veg með það, þegar kreppan eftir heimsstyrjöldina og breytt tækni stöðvaði allt saman. Þetta svonefnda fossabrask Einars og ýmis önnur stórfyrirtæki, sem hann reyndi að hleypa af stokkunum, juku ekki álit hans hjá Íslendingum. Sumir töldu það goðgá að spilla fegurð landsins með virkjun hinna tígulegu fossa, eða þeir kviðu því, að stóriðjan mundi gera þjóðina að þrælkuðum verksmiðjulýð og erlent auðmagn verða sjálfstæði hennar háskalegt. Það var sagt, að ekkert vekti fyrir Einari nema að auðga sjálfan sig og hann væri lítt vandur að brögðum til þess. Þegar svo allt fór út um þúfur, þóttust menn fá staðfestingu þess, að það hefðu verið tómir glæfrar. Það er sjaldan vandgert við þann, sem bíður ósigur.

Það er ekki mitt meðfæri að fella rökstuddan dóm um athafnir Einars Benediktssonar á fjármálasviðinu. En ég er viss um, að almannadómur um þær er reistur á lítilli sanngirni og enn minni þekkingu. Handa sjálfum sér hafði hann ekki annað upp úr þeim en sæmileg fjárráð um miðbik æfi sinnar, sem meðal annars leyfðu honum að ferðast víða um lönd og búa í stórborgum. Þær gersemar í ljóðum hans, sem hann sendi íslandi heim úr útivistinni, ættu að kenna löndum hans að fyrirverða sig fyrir að telja það eftir honum, sem hann græddi á fésýslu sinni. Sá gróði varð líka ekki meiri en svo, að hann er fyrir löngu orðinn snauður maður. Hann mun heldur aldrei hafa langað til þess að safna auði. Konungsgarður hans var ekki rúmur inngangs, en þröngur brottfarar, eins og Snorri segir, heldur eyddi hann fénu jafnörlátlega og hann aflaði þess stundum skjótlega. í höll hans var ekkert rúm fyrir nurlarakistil með handraða fyrir smáskildinga. Það vakti líka áreiðanlega annað og meira fyrir Einari en eigin hagsmunir. Sú var sannfæring hans, að Íslendingum væri lífsnauðsyn að fá meira fjármagn til þess að færa sér gæði landsins í nyt og njóta hæfileika sinna, eins og hann segir í Aldamótum:

En sýnir ei oss
allur siðaður heimur,
hvað sárlegast þarf
þessi strjálbyggði geimur,
að hér er ei stoð
að stafkarlsins auð?
Nei, stórfé!
Hér dugar ei minna!

Þetta stórfé vildi hann færa landi sínu og þjóð. Enginn getur neitað því, að hann sýndi í fyrirætlunum sínum bæði stórhug og áræði, komst furðu langt áleiðis með persónulegu áhrifavaldi sínu og yfirburðum einum saman, án þess að hafa nokkurn bakhjall, hvorki í eigin efnum og þaðan af síður í tilstyrk eða trausti valdamanna hér heima. Ég hygg, að það verði síðar viðurkennt, að ýmsar fyrirætlanir Einars hafi verið miklu skynsamlegri og hagnýtari en samtíðarmenn hans vildu viðurkenna. Sumar þeirra kunna að hafa verið nokkuð uppi í skýjunum eða að minnsta kosti ekki tímabærar. En er það nokkuð undarlegt, að maður með spámannlega andagift verði í aðra röndina spákaupmaður, ef hann fer að fást við kaupsýslu?

Eitt er að minnsta kosti víst um Einar Benediktsson. Það var fjarstæða fyrir samtíðarmenn hans að leggja honum til ámælis, að hann varpaði skugga á skáldskap sinn með braski sínu, sem svo var kallað. Á ljóðlist hans féll aldrei neitt gróm af brestum hans, en hún græddi margvíslega á ferðalögum hans og glímu við fjármálin. Hann sá, eins og Odysseifur, borgir margra manna og lærði að þekkja siðu þeirra. Af þeirri reynslu stafaði víðsýni og heimsborgarabrag á kvæði hans. Hitt væri sönnu nær, að fjármálamaðurinn hafi tapað á sambúðinni við skáldið. Fyrirætlanir hans kunna, eins og áður er sagt, að hafa borið of mikil merki skáldlegs ímyndunarafls. Og enn meira máli skipti það, að hann gat aldrei fengið sig til þess að fórna allri hugsun sinni, bestu hugsun sinni, fyrir athafnalífið. Hvar sem hann fór og hvað sem hann sýslaði, heimtaði skáldið bróðurhlutann af orku hans og athygli. Hann var skiptur:

Hálfan á mig hafsins alda,
hitt ég ber í ljóssins skaut.

Sigling hans gegnum brim og boða fésýslunnar hefði orðið öruggari, ef hann hefði aðeins hugsað um peninga og framkvæmdir. En í raun og veru var ríki þessa mikla heimsmanns aldrei af þessum heimi. Og óvíða í verkum hans kemur það berlegar fram en í kvæðinu um Dettifoss, hvernig það andlega og veraldlega togast á um hann.

III.

Þó að mönnum hafi orðið starsýnast á kaflann um virkjun fossanna í þessu kvæði, er það undið saman af fleiri þáttum. Það er að uppistöðu með óskipulegri kvæðum Einars Benediktssonar. Frammi fyrir hrikaleik hins ótamda afls brýst svo margt í huga skáldsins, vakna svo breytileg veðrabrigði í honum, að hann hvarflar frá einu til annars. En einmitt þess vegna kynnumst við honum hér frá ýmsum hliðum. Hér eru glampar stórfelldrar lýsingar á fossinum og auðninni kringum hann. En það eru ekki nema fáir drættir. Einar hefði getað ort heilt kvæði, sem hefði orðið ógleymanleg lýsing fossins, því að ekkert íslenskt skáld hefir getað málað slíkar myndir með orðum einum sem hann. Þá kemur fram í kvæðinu lotning hans fyrir þessu stórveldi náttúrunnar, sem orkar á hugann, eflir mannleg hjörtu, styrkir veikan vilja, hreinsar sorgina, gerir hið hégómlega, heimskulega, venjubundna að hismi. Og honum finnst sem hamfarir fossins séu fórn, sem hverfi aftur til uppsprettu alls máttar,

sem bergrödd, er sig hrópar heim,

— sama hugsunin, sem kemur fram í Stefjahreimi og ýmsum öðrum kvæðum hans. En um ekkert af öllu þessu er hægt að fjölyrða. Ég vil aðeins enn staldra við eitt .erindi:

Ég þykist skynja hér sem djúpt í draum,
við dagsbrún tímans, nýja magnsins straum,
þá aflið, sem í heilans þráðum þýtur,
af þekking æðri verður lagt í taum. — Er hugarvaldsins voldug öld oss nær,
þá veröld deyr ei, er hún guð sinn lítur,
þá auga manns sér allri fjarlægð fjær,
þá framsýn andans ljósi á eilífð slær
og mustarðskorn af vilja björgin brýtur.

Hvaða útúrdúr er þetta, má spyrja, frá hugleiðingunum um beislun fossins? Er þetta annað en myrkir draumórar og glæsilegt orðagjálfur? Já, það er annað. Þarna talar skáldið sjálft, af ríkari innri sannfæringu en nokkurs staðar annars í kvæðinu. Þarna er hann að lýsa sinni persónulegustu reynslu, þótt í fáum orðum sé gert. Það mun hafa. verið nokkuð almennur skilningur á skáldskap Einars Benediktssonar lengi vel, að kvæði hans væru barin saman af frábærum gáfum og mannviti, en í þau vantaði hina goðbornu andagift, innblásturinn, hinar djúpu tilfinningar. Þessari skoðun lýsti einn samtíðarmaður hans prýðilega í tímaritsgrein: „Jafnan sýður niður í hvernum, þegar hann hefir gosið. Hann er gæddur fallanda eðli og stíganda. Þess vegna er Geysir gersemi. En tilbúnir gosbrunnar .eru með öðrum hætti og geta þó gert vel sínar sakir. Og nú datt mér í hug Einar Benediktsson“. [11-01] Svo mörg eru þau orð. Matthías var í augum íslendinga hið innblásna skáld, skáldið af guðs náð. Einar Benediktsson og Stephan G. Stephansson voru skáld af vitsmunum og vilja, þeim var allt sjálfrátt vel gefið, en ekki hinn ósjálfráði guðsneisti. Um Stephan skal ég ekki tala í þessu sambandi. Það kemur ekki málinu við. Og fjarri væri mér að gera lítið úr innblæstri Matthíasar. Hann hefir séð í tvo heimana, vitað hvað það var að vera frá sér numinn, eins og hann hefir lýst í Leiðslu:

Og andinn mig hreif upp á háfjallatind.

Einar virðist hafa metið Matthías meira en öll önnur íslensk skáld á 19. öld. Og einu sinni sagði hann við mig, að hann hefði mestar mætur á Leiðslu af öllum kvæðum Matthíasar. Þar fann hann auðsjáanlega mestan skyldleik við sinn eigin skáldskap.

Sannleikurinn um Einar Benediktsson er sá, að þó að hann væri mikill íþróttamaður á mál og stíl, þó að vitsmunir hans setji mark sitt á kvæði hans, meðal annars í því, hve vandlátur hann er á búning þeirra, þá var hann framar öllu skáld af guðs náð, ef nota má þetta slitna og hálfóljósa orðatiltæki. Hann var dulsæismaður í eðli sínu, leitaði allt af út yfir takmörk hinnar hversdagslegu hugsunar og skynsemi, átti sér djúpa og persónulega trúarreynslu, sem að vísu birtist honum ekki nema í blikum, hugboði, eins og tíðast er um vitundarlíf af því tagi, — þar sem hann rakst á ofur.efli sitt, en gerði þó sífellt nýjar og nýjar atlögur að því að sækja á „vonlausu klifin". [12-01]Hann hefir í lítilli frásögu frá yngri árum sínum, sem er talin rituð 1897, en efalaust hugsuð nokkrum árum fyrr, og hann nefndi Gullský, reynt að lýsa þessu ástandi: hvernig hann skynjar tilveruna, skilur hana fremur með taugum en heila, sameinast náttúrunni, svo að honum finnst hún vera hið innra í honum og hann verða að náttúrunni, „eins og niðurinn af öldunum við ströndina og ómurinn af vængjaflugi tímans kæmi frá honum sjálfum“. Í svip þykir honum „sem anda hans væri ekkert of hátt og ekkert of lágt“. En þrá hans og leit ná lengra en hann getur skynjað á þennan hátt. Var hann ekki skynjaður og skilinn til fulls af annarri æðri sál, sem elskaði hann, eins og hann elskaði moldina? Þetta varð ekki nema spurning, skilningur alheimssálarinnar var honum árangurslaus ofraun, gagnvart henni fann hann til ótta fremur en elsku, andi hans blakaði varfleygum vængjum að ströndum „hins ókunna lands, þar sem allar bylgjur brotnuðu og hurfu í sjálfar sig aftur“, líkt og hann síðar kemst að orði í Pundinu:

--bænirnar lyftast af hálfum hug
sem hópvilltir ungar, seinir í förum,
á óravegum, um víðáttu sanda,
með vænglamað flug,

er falla við sjónhring fjarlægra stranda. Samt hafði hann eygt þessar strendur, viðleitni hans bar hann í áttina til þeirra, og hann vissi stefnuna.

Það sem hann í þessu litla broti finnur til, stamar fram með hálfkveðnum orðum, verður síðan hinn gullni þráður í öllum skáldskap hans. Þessarar hverfulu og ósegjanlegu reynslu er hann allt af að leita og leitast við að lýsa henni. Og hann hefir komist nær því en nokkurt annað íslenskt skáld. Ef við tökum trúarbrögð í orðsins dýpstu merkingu, án þess að hugsa um kenningar nokkurs sérstaks trúarflokks, án þess að blanda trúarlífinu saman við lögteknar játningar og borgaralegt siðferði, þá er Einar Benediktsson eitt af okkar mestu andlegu (religiösu) skáldum. Þetta kemur fram í erindinu, sem ég tilfærði áðan.

Hugsunin um, að afli fljótsins og fossins verði stjórnað af tækni mannvitsins, bendir honum á enn háleitara takmark. Mannkyninu er ætlaður miklu meiri hlutur en að hagnýta sér náttúruöflin. Mannssálin sjálf er afl, „aflið, sem í heilans þráðum þýtur“. Þetta afl er ekki framleitt af heilanum, heldur komið frá hinni miklu uppsprettu andans, líkt og straumurinn í rafleiðsluþráðunum frá orkustöðinni. Með æðri þekkingu getum við náð taumhaldi á þessari andlegu orku, og þá rennur upp hin nýja öld hugarvaldsins, miklu voldugri en öld tækninnar. Með hugarvaldi á Einar fyrst og fremst við, að maðurinn fái vald á hugsunum sínum, láti ekki berast eins og flak með straumi hugrenninganna. En hann trúir því líka, að með ræktun hugarfarsins magnist máttur mannsandans, vilji hans geti klofið björgin, [14-01] sýn hans náð út yfir hina helfjötruðu veröld takmarks og tíma, hann geti skynjað guðdóminn, horfst í augu við hann, án þess að deyja. Allt þetta hyggur hann hina miklu dulspekinga hafa megnað á bestu stundum sínum. Hann skilur þetta ekki til fulls, en skynjar það sem í djúpum draumi.

IV.

Ég sagði það hér að framan, að í kvæðinu um Dettifoss kæmi það berlega í ljós, hvernig hið veraldlega og andlega togaðist á um Einar Benediktss. Annars vegar er athafnalöngun fésýslumannsins, sem vill gera náttúruna og auð hennar sér undirgefin, bæta ytri kjör lýðs og lands, leita gæfunnar á leiðum auðs og framkvæmda. Hins vegar er þrá dulsæismannsins, sem finnst allt lítils virði í samanburði við þá æðri þekkingu og þroska, sem stefnir að fullkominni guðsvitund. Hvernig samrýmdust þessar tvær stefnur í fari hans og hugsun?

Það er enginn hægðarleikur að gera skýra grein fyrir lífsskoðun Einars Benediktssonar. Enginn nema sá, sem í senn þekkir svipað vitundarlíf og hún er runnin af og hefir auk þess sökkt sér ofan í kvæði hans, getur greint í sundur, hvar hann talar af eigin reynd, af öllum hug, og hvar hann grípur til venjubundinna orða og aðfenginna hugtaka til þess að drepa þeim í skörð þessarar reynslu. Það er ekki heldur heimspeki hans, sem skiptir mestu máli, hvort hann hefir átt sér samfellt kerfi heimsskoðunar, sem skipa mætti á sinn stað í sögu frumspekinnar, þó að það sé út af fyrir sig fróðlegt rannsóknarefni. Að minnsta kosti eru engin tök á að ræða það hér. En fáeinar, sundurlausar athuganir um persónulegasta viðhorf hans, í trú, líferni og skáldskap gætu ef til vill orðið einhverjum af áheyrendum mínum hvöt og leiðbeining til þess að lesa kvæði hans með meiri gaumgæfni.

Það hefir verið algengt að tala um algyðistrú ( panþeisma) Einars, og má vitna því til stuðnings í ýmsa staði í kvæðum hans:

Ég veit, að allt er af einu fætt,
að alheimsins líf er ein voldug ætt,
dauðleg, eilíf og ótalþætt
um afgrunns og himins slóðir.

Eða:

Djöfuls afl og engils veldi
eru af sömu máttarlind o. s. frv.

En algyðistrú getur verið með ýmsum hætti, svo að á sumum stigum hennar verður allt guðlegt, en hún getur líka nálgast það að láta hið guðlega hverfa í náttúruna og verða nafnið tómt. Hvað sem Einar Benediktsson sums staðar segir um þetta efni og hvað sem hann kann stundum að hafa hugsað um það, leikur enginn vafi á því, að samkvæmt reynslu sinni og innstu sannfæringu var hann eindreginn tvíhyggjumaður:

Því ljósvakans máttuga móðurlind
og moldarnáttúran dauð og blind
tengjast í okkar ytri mynd,
en eru af tveimur heimum.

Í Gullskýi talar hann um „eðli náttúrunnar - - þetta tvíbrotna, hverfula eðli, sem þráir að lifa og þarf að deyja“. Í Stefjahreimi segir hann: „Þá heimur giftist heli og gröf". Alheimsins líf er runnið frá einni uppsprettu, en það er tengt efninu — og með því baráttunni, syndinni, dauðanum. Þó að Einar tali um, að lífið sé eilíft, er dauðaóttinn ægilegur veruleiki í hugsun hans (sjá t. d. Húmstíga), og það er efasamt, hvort hann hefir nokkurn tíma verið sannfærður um framhaldslíf fyrir einstaklinginn. Hann fann ekki einungis til þess, að venjulegum, dauðlegum mönnum væri um megn að skilja guð, torvelt að elska hann. Maðurinn gat gert guðdómseðli sitt að synd, umsnúið guðsmyndinni í djöful, gengið í lið með dauðanum (Svarti skóli, Draumspá Ísrafels). Ef til vill hefir hans innsta hugsun um áhættu mannlífsins verið skyld því, sem Ibsen setur fram í Pétri Gaut, að maðurinn yrði að ávinna sér ódauðleika, að laun syndarinnar væru dauði (útkulnun, sbr. Pundið).

Það er ein af fjarstæðunum í lífi Einars Benediktssonar, að siðakröfur hans til sjálfs sín voru svo strangar og háleitar, að honum fannst yfirleitt ekki taka því að gefa þeim nokkurn gaum í hátterni sínu. Sá guð, sem hann gerði sér hugmynd um, heimtaði allt. Ekkert fullnægði þeim kröfum nema að helga æfi sína andanum, hverja hugsun og lífshræringu. Einar gat dreymt um, að hann hefði átt að lifa sem heilagur maður. Úr því hann gat ekki farið „skylduleið andans með brotnar brýr að baki“, voru honum allir smáskildingar borgaralegra dyggða og góðverka einskis virði. Það var ,eins og í fjármálunum: Nei, stórfé! Hér dugar ei minna! Þá var eins gott að láta reka á reiðanum. „Annaðhvort mun okkur Krist meira á skilja en hálft mörbjúga ella munum við verða vel ásáttir“, sagði Þormóður Kolbrúnarskáld, þegar hann braut föstuna.

Nú má að vísu segja, að Einar hafi bæði gefið keisaranum það, sem keisarans var, í þjónustu sinni við hold og heim, — og guði það, sem guðs var, í skáldskap sínum. Hann gat skilið þetta tvennt furðanlega að. Samt gat hann ekki gleymt því, að þessir tveir heimar voru tengdir saman í einni persónu, og sú hugsun var honum ótti og þjáning:

En allt er oss þungt, með eðli tvenn,
og Edens hurðir oss varðar —
að bera hér hold og sál í senn,
sauðir glataðrar hjarðar. [17-01]

Það var engin furða, þó að slíkur maður væri samtíð sinni ráðgáta, stórbraskari og stórskáld, fésýslumaður, sem fyrirleit jarðneska muni, með yfirlæti og sundurgerð á ytra borði, en auðmýkt og sektarvitund í hjarta, gjarn á glaum, óhóf og munað, á flótta frá sjálfum sér, án þess að finna athvarf svölunar og gleymsku:

Minn hlátur er sorg. Við skrum og við skál
í skotsilfri bruðla ég hjarta míns auði.
Mungátin sjálf hún ber moldarkeim.

Og hann gerði ekki samferðamönnunum auðveldara fyrir að átta sig á honum. Mest af viðræðum hans við fólk var ekki annað en glæsilegur orðareykur, sem hann þyrlaði upp til þess að dyljast, fylla tóm einskisverðra samvista og komast hjá því að hlusta á heimskuhjal annarra manna. Þar áttu sannarlega við hans eigin orð: „Skilur haf hjarta og vör“. Ekki er vafi á því, að hann hefir lagt sig meira fram og á annan hátt, þegar hann þurfti að beita fortölum við menn í sambandi við fyrirtæki sín. En þar var það enn annar maður, sem talaði. I samkvæmishjali til dægrastyttingar nennti hann sjaldan að beita sér og gat sjaldan fengið af sér að tala af einlægni, einna helst, þegar honum var andmælt og hann hitti fyrir menn, sem fannst fátt um glamrið. Því að hina fyrirleit hann mest af öllum, sem létu glepjast til aðdáunar af glæsimennsku hans eða hlustuðu á hann með fjálgleik í þeirri villutrú, að þessi málskrafsmikli trúður væri sami maður og skáldið Einar Benediktsson.

En voru þá engin tengsl milli þessara tveggja persóna? Eitt er víst: fyrir loddarann voru engar inngöngudyr opnar að musteri skáldsins. Einar misbeitti aldrei list sinni né hafði hana í fíflskaparmálum. En skáldið gat horft úr turni sínum á sinn glataða bróður, ekki til þess að aga hann né reisa hann við, heldur til þess að þjást með honum, taka á sig ábyrgðina á þessu „skipbrotslífi“. Það var nokkurs konar friðþægingarathöfn. Því væri ekki heldur rétt að neita, að skáldið hafi stundum gert vart við sig í hversdagslífi Einars. Mitt í gambri hans og gaspri gat brugðið svo undarlega við, að annarleg rödd hljómaði eins og „stakur strengur“. Þá kveinkaði hann sér við ruddaskap, sem hann sjálfur hafði tekið þátt í, hryllti við sinni eigin grímu, gat allt í einu orðið barnslega næmur, fíngerður og hreinskilinn. Og þó að sjálfstæði skáldsins gagnvart heimsmanninum væri furðulegt, vissi Einar það manna best sjálfur, að sambúðin milli þeirra var leikur að eldi og hann hefði getað orðið ,enn meira skáld, ef allt líferni hans hefði verið í sama anda og listin.

Enginn maður nær takmarki sínu í lífinu. Því meiri sem kraftarnir og hæfileikarnir eru, því hærra leitar hugurinn. Hann einn kemst á skeiðsenda. Verkin eru löngu kólfskoti á eftir. Frábærir menn eiga sér allt af hugsjónir, sem mætti þeirra eru um megn:

Tvískipt er eðlið og hálfur manns hugi;
til hæða, til dýpis hann mæðist á flugi.

Meðvitundin um þetta er rík í skáldskap Einars Benediktssonar. Þó að hann vissi, að hann hefði komist langt áleiðis í samanburði við önnur skáld, duldist honum ekki, hvað á skorti af því, sem hann sjálfur vildi. Þetta kemur fram í ýmiss konar myndum í kvæðum hans, eftir því sem geðbrigðin brjótast í honum. 1 Gömlu lagi ásakar hann sig fyrir að hafa ekki sniðið sér stakk eftir vexti:

Því braust ég frá sókn þeirra vinnandi vega
á vonlausu klifin, um hrapandi fell?
Það hlóðst að mér allt eins og haf af trega,
sem holskefla sannleikinn yfir mig féll —
minn eyddi draumur, sem eilífð ei borgar,
minn óður einn skuggi fánýtrar sorgar.

Hann verður svo lítillátur að óska þess, að hann hefði ort kvæði sín að alþýðu skapi og við alþýðu hæfi, en lýkur þó kvæðinu með því að finnast hann vera haukur meðal fiðrilda og flugna, flugþreyttur að vísu, en samt haukur! Miklu sárari harmur er honum í huga, þegar hann talar um sína æðstu köllun, sem var öllum skáldskap meiri, að öðlast þá guðsvitund, sem einungis hreinhjörtuðum er veitt:

Veistu, það eitt, sem sá voldugi ann,
er veröld, sem hjartað býr sér til?

Þessi köllun var „lokkbjarta sveinsins vöggugjöf“, pundið, sem hann hafði ekki ávaxtað, þrátt fyrir alla sína þrá til þess:

Síðan kafa ég knattasund;
kalla i bæn um týndan lund.
Færi heim af banabrautum
brot mín — fyrir vaxtað pund.

Sú tilfinning, sem hann lýsir í Gullskýi, að hann geti ekki elskað alheimssálina, af því að hann gat ekki snortið hana með huganum og hjarta hans var það ofraun, var hans þyngsti dómur. Hennar vegna reikaði hann um eins og gestur og útlagi:

Menn þagga svo oft sína innstu rödd.
Útlendir dvelja þeir hér á jörð.

Það er ekki einungis breyskleiki holdsins, sem þessu veldur. Sjálft mannvit hans verður honum að synd. Í Draumspá ísrafels, einu af torveldustu og djúpsæjustu kvæðum Einars, nálgast hann grundvallaratriði kristilegrar hugsunar: ,,Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki, sælir eru hreinhjartaðir, því að þeir munu guð sjá“. Loki, Lucifer, ljóshnýsni engillinn með forvitnu augun, „sá andi, sem fjötrast við reynslu og rök“, — verður honum ímynd hins sálarseka.

En við getum líka skilið fjarlægðina milli takmarka skáldsins og verka, ef við hverfum frá þessari innri baráttu að búningi kvæðanna. Valdi Einars á tungunni hefir að makleikum verið við brugðið, og mönnum hefir orðið tíðvitnað í ummæli hans:

Ég skildi, að orð er á Íslandi til
um allt, sem er hugsað á jörðu.

Hitt gleymist fremur, að það var sama skáldið, sem í æsku sagði:

--mitt ljóð er án máls —

og löngu síðar:

Hvert mannsbrjóst á einhvern innsta róm,
sem orð ekki fann að segja.

Honum var ekki einungis ljóst, að hann hafði ekki öðlast þá reynslu, sem hann hungraði og þyrsti eftir, nema í leiftrum og brotum. Hann fann líka til þess, að jafnvel það, sem hann skynjaði, gat hann ,ekki sagt. Hugsunin hrökk ekki til þess, orðin þaðan af síður. Lesendur kvæða hans verða stundum að renna grun í það, sem fyrir honum vakir, með sams konar hugboði og hann hafði sjálfan órað fyrir leyndardómunum. En þetta hugboð gat honum fundist svo óviðunandi, að takmörkin milli svefns og vöku, jafnvel tilveru og tilveruleysis, þurrkuðust út:

Oss dreymir. Vér urðum aldrei til.

Það má segja, að sundurleitnin í fari Einars Benediktssonar, sem ég hefi reynt að vekja hér athygli á í fáum dráttum, skipti litlu í samanburði við afrek hans, þegar hann var mestur og verk hans fullkomnust. Samt má ekki gleyma henni. Hún er eitt af hans merkilegustu yrkisefnum. Hún skýrir hina geysi-sundurleitu dóma um skáldskap hans. Það væri efni í fróðlegan þátt úr andlegri þroskasögu Íslendinga á 20. öldinni að rekja þá dóma sundur og sýna, hvar leiðirnar skiljast með skáldinu og mönnum af ýmsu tagi. Ég skal aðeins að lokum minnast á eitt atriði úr þeirri sögu.

Af öllum kvæðabókum Einars hefir sú síðasta. Hvammar, hlotið langminnstar vinsældir. Það mun almennt vera álitið, að hún beri öll merki hrörnunar. Þar sé skáldinu farið að fatast, bæði í því að gera öðrum það skiljanlegt, sem hann vilji segja, og jafnvel að vita sjálfur, hvað hann sé að fara.

Mig langar ekki til þess að fara út í neinn jöfnuð milli bóka Einars. En að einu leyti haf a Hvammar vakið mesta furðu mína af þeim öllum. Það er ekkert launungarmál, að á því árabili, er hann orti kvæðin í þeirri bók, fór högum hans mjög hnignandi. Hann beið hvert skipbrotið af öðru, hann virtist vera orðinn hirðulaus um sjálfan sig og háttsemi sína. Heilsa og kraftar voru svo að þrotum komin, að eftir að Hvammar komu út, 1930, yrkir hann ekki nema eitt kvæði. Og samt sem áður gat hann ort svona, alveg fram að því, sem hann felldi seglin. Það eru ekki ellimörk á Hvömmum. Miklu fremur er sérstakur skyldleiki með þeirri bók og djörfustu viðleitni hans í verkunum frá því hann var um þrítugt. Það er eins og hann freisti hér síðustu glímunnar við ofureflið, með tröllauknum tökum. Hann hafði aldrei ætlað sér meira — og ekki heldur getað meira. Hvammar eru undrið, kraftaverkið í lífi hans.

Þessi síðasta bók Einars Benediktssonar færir okkur best heim sanninn um, hversu trúr hann hafði verið köllun sinni, þrátt fyrir mannlegan veikleika og breyskleika, og hvílík iðgjöld hann hafði hlotið fyrir. Skáldskapurinn hafði verið honum vígður reitur. Til þess Helgafells leit hann aldrei óþveginn, án þess að hafa baðað hug sinn af sora og syndum. Þar dvaldi hann aleinn með sál sinni sjálfri, frammi fyrir dýrð og stórmerkjum tilverunnar, hlustaði á hin heillandi og storkandi orð völuspárinnar: „Vituð ér enn — eða hvat?“ Það verður að miklu leyti eilíft einkamál skáldsins, hvað hann lifði á þeim stundum, sem voru honum sjálfur veruleikinn, — eins og það var ráðgáta fyrir manna sjónum, hvernig sá maður, sem þeir hittu „við skrum og við skál“, hafði getað varðveitt þennan heiða heim ofar skýjum og veðrum. En ég get ekki verið í vafa um, að hann hefir þá fengið glampa af vitund og kennt unaðar, sem útvaldir einir þekkja. Þessi mikli andi hefir verið máttugastur í vanmætti sínum, er hann hafði varpað af sér öllum heimsþótta og veraldarvisku. Og vald hans á tungunni verður aðdáanlegast, þegar það er að þrjóta fyrir orðvana undrun barnsins og hann reynir að gera sig skiljanlegan með táknum og líkingum. Það er engum of gott að telja allt það í Hvömmum og öðrum kvæðum Einars Benediktssonar, sem nær út yfir hversdagslegan sjónhring þeirra, óráðshjal, — að lifa s'ælir í þeirri vissu, að takmörk mannsandans liggi nákvæmlega við þeirra eigin vallargarð, — og spá því, að slíkan skáldskap nenni menn ekki að lesa í framtíðinni. En þegar ég hugsa um það, að nú þegar lesa unglingar í skólum kvæði eftir Einar, sem merkir menntamenn töldu skilningi sínum algerlega ofvaxin fyrir 30 árum, er ég sannfærður um hið gagnstæða. Komandi kynslóðir munu lesa verk hans með sívaxandi alúð og árangri. Og einmitt þeim lesendum mun fjölga, sem reyna að njóta leiðsögu hans inn í helgidóminn, þar sem þeir draga skó sína af fótum sér.

Hinn víðförli ævintýramaður dvelur nú á afskekktum, íslenskum sveitabæ, frammi fyrir hinum mikla útsæ. Hann er horfinn veröldinni, og veröldin er horfin honum. Þegar dauðinn vitjar hans, mun það verða sem í draumi. Óttalaust og kvíðalaust mun hann leggja út á djúpið. Ævistarfinu er lokið. Hann hefir sagt sitt síðasta orð. Hann sagði það með niðurlagserindinu í Hvömmum fyrir níu árum, og með þeim hinsta boðskap skáldsins sjálfs vil ég ljúka þessu máli:

Hafknörinn glæsti og fjörunnar flak
fljóta bæði. Trú þú og vak.
Marmarans höll er sem moldarhrúga.
Musteri guðs eru hjörtun, sem trúa,
þó hafi þau ei yfir höfði þak.

Column 1

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipisicing elit...

Ut enim ad minim veniam, quis nostrud exercitation ullamco laboris...

Column 2

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipisicing elit...

Ut enim ad minim veniam, quis nostrud exercitation ullamco laboris...

Column 3

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipisicing elit...

Ut enim ad minim veniam, quis nostrud exercitation ullamco laboris...

Column 4

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipisicing elit...

Ut enim ad minim veniam, quis nostrud exercitation ullamco laboris...